Skátalundur við Hvaleyrarvatn

St. Georgsgildið í Hafnarfirði á útilegu- eða útivistarskála við Hvaleyrarvatn. Hann heitir Skátalundur og var vígður 25. júní 1968.
Efnið í hann kom tilsniðið frá Noregi og kostaði 86.310,65 krónur á þess tíma verðlagi. Árið 1970 var pallur byggður við húsið og kamína keypt til upphitunar í Skátalundi.  Á árunum 1978 og 1979 var Skátalundi breytt og húsið stækkað. Til þess var varið 650.000 krónum. Haustið 2001 var rafmagn og vatn leitt í skálann.
Landið
Hafist var handa við að girða landið umhverfis Skátalund 1972 og því var að mestu lokið 1973. Í gegnum tíðina hefur trjám verið plantað í landið sem var frekar lítt gróið með stöku birkikjarri. Hægur vöxtur var í trjánum til að byrja með en á níunda áratuginum fór árangurinn að verða áberandi og eftir 2010 fór að myndast þörf fyrir að fella nokkur stór tré. Skátaskógurinn var nú orðinn að veruleika. Finna má ýmsar trjátegundir og þar má finna nokkur eikartré af finnskum uppruna. Þó þau séu ekki orðin stór virðast þau þrífast ágætlega.
Við Skátalund hafa verið gerðar flatir þar sem hægt er að tjalda auk þess sem stór flöt er skammt frá skálanum þar sem hægt er að setja upp stórar tjaldbúðir, fara í leiki og fl.
Tímamót voru 3. ágúst 2012 er þinglýstur var leigusamningur við Hafnarfjarðarbæ um 70.554 fermetra lóð í kringum Skátalund skv. nýju deiliskipulagi.
Framtíðarsýn
Skátalundur og svæðið umhverfis hans er og á að vera útivistarmiðstöð fyrir skáta og aðra bæjarbúa. Umhverfi Hvaleyrarvatns er útivistarsvæði Hafnarfjarðar og gildisskátar eru með Skógræktarfélag Hafnarfjarðar sem góðan nágranna. Í samstarfi við Skógræktarfélagið er stefnt að stígagerð í gegnum svæðið og tengja það öðrum stígum á svæðinu. Skipuleggja þarf svæðið og og gera verkáætlanir svo hægt og rólega sé hægt að vinna að því að gera svæðið enn betra en það er.