Nýtt nafn, Skátagildin á Íslandi

Landsþing St. Georgsgildanna á Íslandi var haldið í Kjarna v/ Akureyri laugardaginn 4. maí sl. Mæting var góð, um 70 fulltrúar frá öllum gildunum hittust og kynntu starf síðustu tveggja ára.

Lagabreytingartillaga kom frá Guðna Gíslasyni um að í stað “Landsgildis” væri tekið upp nafnið “Skátagildin” eða “Skátagildin á Íslandi” sem daglegt nafn á samtökunum St. Georgsgildin á Íslandi. Þó nokkur umræða var um þessa tillögu en röksemd fyrir breytingunni var sú að borið hafi á andstöðu við nafnið St. Georgsgildi, sérstaklega hjá yngri skátum, þeim sem stefnt er að fá inn í gildisstarfið. Í 1. grein samþykkta St. Georgsgildanna á Íslandi sagði að heiti samtakanna væri St. Georgsgildin á Íslandi, í daglegu máli nefnd Landsgildið. Bent var á að heitið Landsgildið segði ekkert um tengingu við skátastarf eða St. Georgsgildi og til að tengja heiti samtakanna betur við skátastarf væri rétt að taka upp heitið Skátagildin á Íslandi eða Skátagildin sem heiti samtakanna í daglegu máli. Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og nefndi Guðni í ávarpi til þinggesta að samþykktin bæri vott um víðsýni þinggesta og vilja til að takast á við breytt umhverfi í starfi að því að gera Skátagildin á Íslandi sem samnefnara eldri skáta í landinu.

Þá var einróma samþykkt að fækka stjórnarmönnum úr 7 í 5 og var Hrefna Hjálmarsdóttir endurkjörinn landsgildismeistari og aðrir í stjórn voru kjörin Fjóla Hermannsdóttir, Akureyri, Guðvarður B. F. Ólafsson Hafnarfirði, Hreinn Óskarsson, Keflavík og  Kjartan Jarlsson Kópavogi. Þá var Hallfríður Helgadóttir Hafnarfirði kjörinn varamaður.

Samþykkt var að stjórn skipi tvær nefndir með fulltrúum úr öllum gildum, útbreiðslunefnd og laganefnd.

Góður andi var á þinginu þó smá órói hafi verið við afgreiðslu lagabreytinga. Farið var í skoðunarferð að Möðruvallakirkju undir góðri leiðsögn Braga Guðmundssonar sagnfræðings og prófessors við HA. Þar flutti Hrefna St. Georgsboðskapinn sem saminn var af sr. Agnesi Sigurðardóttur biskupi Íslands.

Þinginu lauk með hátíðarkvöldverði í Kjarna og var gríðarlega góð stemmning, fjöldi skemmtiatriða og hlegið dátt. Það fóru ánægðir þinggestir heim á leið.

Heimferð Hafnfirðinganna fjögurra sem sátu þingið, Guðna, Kristjönu, Höllu og Gunnars Rafns gekk þó ekki þrautalaust því bíll Guðna bilaði rétt fyrir utan Hvammstanga og þegar þetta er skrifað sátu þau Guðni og Kristjana enn á Hvammstanga og biðu aðstoðar góðra skáta sem héldu frá Hafnarfirði með bílakerru til að sækja bílinn en Halla og Gunnar fengu far með skátum úr Kópavogi.

Fjölmargar myndir frá þinginu eru á www.facebook.com/skatagildi Smellið hér